Skýrslan prentuð í nótt

Atli Gíslason er formaður nefndarinnar. Með honum á myndinni eru …
Atli Gíslason er formaður nefndarinnar. Með honum á myndinni eru Lilja Mósesdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Árni Sæberg

Stefnt er að því að skýrsla þingmannanefndar sem fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis verði prentuð í nótt og dreift á Alþingi á morgun.

Nefndin hefur setið á fundi í allan dag og reiknað er með að fundurinn standi fram á kvöld. Dagskrá næsta þingfundar hefur ekki verið birt formlega en starfsmenn Alþingis reikna með að Alþingi komi saman kl. 17 á morgun og þá verði skýrslu þingmannanefndarinnar dreift. Samtímis verður hún birt á vef Alþingis.

Fyrir fundinn koma þingflokkar saman þar sem tillögur nefndarinnar verða kynntar. Þessi áætlun getur breyst ef nefndinni gengur illa að ná saman í kvöld um endanlegar tillögur.

Nefndin hefur haldið fundi daglega síðustu vikurnar. Í fundargerðum nefndarinnar kemur fram að nefndin hefur mikið rætt um ráðherraábyrgð á síðustu fundunum. Sérfræðingar í lögum hafa komið fyrir nefndina til að gefa ráð og svara spurningum.

Ef nefndin leggur til að höfðað verði mál gegn ráðherrum verður tillögu þess efnis dreift á fundinum sem stefnt er að verði haldinn á morgun. Í tillögunni verður skilgreint hvaða ákvæði laga talið er að ráðherrarnir hafi brotið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert