Fréttaskýring: Þarf að gera grein fyrir ákæruatriðum

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í forystu …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í forystu fyrir ríkisstjórn landsins þegar hrunið varð. mbl.is/Kristinn

Ef níu manna þingmannanefnd, sem fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis um orsakir bankahrunsins, ákveður að leggja fram þingsályktunartillögu um að ákæra ráðherra þarf hún að tiltaka ákæruatriðin nákvæmlega í tillögunni sem lögð verður fyrir Alþingi.

Ákvæði um landsdóm hefur verið að finna í íslenskum lögum í meira en 100 ár, en dómurinn hefur aldrei komið saman. Dómnum er ætlað að fjalla um hugsanleg lögbrot ráðherra. Í landsdómi sitja 15 menn. Sjö eru löglærðir, þar af fimm sem sitja í Hæstarétti. Alþingi kýs átta menn til setu í landsdómi og var síðast kosið í hann í maí 2005.

Í venjulegum dómsmálum er það saksóknari eða aðrir þeir sem fara með ákæruvald sem leggja fram ákæru, en samkvæmt lögum um landsdóm er ákæruvaldið í höndum Alþingis. Þingið þarf að samþykkja þingsályktunartillögu, en á morgun verður upplýst hvort slík tillaga kemur fram. Í tillögunni þarf að tilgreina ákæruatriðin nákvæmlega. Alþingi þarf einnig að kjósa mann til að sækja málið fyrir landsdómi.

Ásetningur eða hirðuleysi

Það sem er kannski mest óvissa um er hvers konar brot þurfa að hafa átt sér stað til að Alþingi ákveði að höfða mál. Þar þarf þingið að feta nýja braut því að það hefur aldrei gefið út ákæru og hefur því ekkert við að styðjast nema lögin, en orðalagið í þeim er um margt frekar almennt þegar kemur að sakarefnum.

Í 2. gr. laga um ráðherraábyrgð segir að krefja megi ráðherra ábyrgðar vegna starfa eða starfa sem hann hefur vanrækt ef málið er svo vaxið „að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“.

Þetta ákvæði setur ákæruvaldinu viss mörk. Annaðhvort þarf ráðherranum að hafa verið það ljóst eða mátt vera það ljóst að hann væri að brjóta lög eða ef ákæra á ráðherra fyrir hirðuleysi þarf hirðuleysið að vera „stórkostlegt“. Ekki er því nóg að sanna að ráðherra hafi sýnt af sér hirðuleysi eða vanrækslu. Sýna þarf fram á að hirðuleysið hafi verið alvarlegt.

Í 8.-10 gr. laganna er nánar fjallað um refsiábyrgð ráðherra. Þar segir m.a. að ráðherra sé ábyrgur ef hann verður þess valdandi „að frelsi eða sjálfsforræði landsins“ er skert. (d-liður 8. gr.) Einnig er ráðherra ábyrgur „ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“. Sömuleiðis ef „hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það er afstýrt gat slíkri hættu“ (b-liður 10. gr.).

Nokkrir sérfræðingar í lögum hafa komið fyrir þingmannanefndina. Einn þeirra er Róbert Spanó, prófessor við Háskóla Íslands, er fjallaði um skýrleika refsiheimilda í lögum um ráðherraábyrgð í grein sem hann skrifaði í Tímarit lögfræðinga 2005. Róbert vísar þar í ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár og segir að gera verði þá kröfu að refsiheimildir megi ekki vera of almennar og óljósar.

Almennt gildir líka sú regla að ekki á að gefa út ákæru nema ákæruvaldið hafi trú á að ákærði fáist sakfelldur.

Fékk fjögurra mánaða dóm

Þegar leitað er fordæma um hvernig lög um landsdóm og ráðherraábyrgð gætu virkað er nærtækast að horfa til Danmerkur. Íslensk lög og dönsk lög um ráðherraábyrgð eru svipuð, enda var stuðst við dönsku lögin þegar lög um ráðherraábyrgð og landsdóm voru endurskoðuð árið 1963.

Árið 1993 ákvað danska þingið að ákæra Erik Ninn-Hansen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, vegna brota á lögum um ráðherraábyrgð. Málið snerist um meðferð Hansens á um 140 umsóknum tamíla um dvalarleyfi í Danmörku. 15 af 20 dómurum vildu sakfella ráðherrann. Niðurstaðan varð fjögurra mánaða skilorðsbundinn dómur, með hliðsjón af háum aldri Hansens og heilsubresti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert