Vilja hitaveituna aftur

Hverasvæði við Hveragerði.
Hverasvæði við Hveragerði. mbl.is/Helgi Bjarnason

Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðis samþykkti í gær tillögu um að óska nú þegar eftir  viðræðum við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur til að kanna grundvöll þess að Hitaveitu Hveragerðisbæjar verði skilað aftur til Hvergerðinga  gegn eðlilegu endurgjaldi.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum sjálfstæðismanna  en tveir fulltrúar minnihlutans sátu hjá. 

Var bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og lögmanni falið að hefja nú þegar viðræður  við Orkuveituna með það fyrir augum að ná sem bestri niðurstöðu fyrir Hvergerðinga.   Hefur erindi með beiðni um viðræður þegar verið sent til Orkuveitu Reykjavíkur.  

Hitaveita Hveragerðis var seld til Orkuveitu Reykjavíkur sumarið 2004.  Í greinargerð með tillögunni segir, að salan hafi á sínum tíma verið afar umdeild enda hafi ekki eingöngu verið að selja veitukerfið og veita einkarétt á sölu og dreifingu á heitu vatni heldur einnig seldur  einkaréttur til jarðhitaleitar og virkjunar jarðhita í eignarlandi Hveragerðisbæjar. 

„Með fordæmislausri ákvörðun um hækkun á heitu vatni um 35% er Orkuveita Reykjavíkur að varpa ábyrgðarlausri skuldasöfnun sinni yfir á íbúa Hveragerðisbæjar sem engan þátt hafa átt í henni.  Núverandi meirihluti telur samninga um sölu Hitaveitunnar hafa verið með öllu óásættanlega og hagsmunir bæjarbúa þar gróflega fyrir borð bornir eins og ítrekað var bent á og undanfarið hefur berlega komið í ljós," segir í greinargerð með tillögunni, sem samþykkt var í gær.
 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert