Marilyn Young, sem hélt því fram að hún ætti barn með skákmeistaranum Bobby Fischer, hefur nú farið fram á að tekin verði lífssýni úr tveimur systursonum Fischers, sem gera einnig kröfu um arf eftir hann, og þau borin saman við sýni úr Fischer.
Nýlega var upplýst, að DNA rannsókn, sem gerð var á Jinky, dóttur Marilyn, leiddi í ljós að hún gæti ekki verið dóttir Fischers. Lögmaður Marilyn hefur hins vegar ekki gefist upp og sent tölvupósta á Þórð Bogason, lögmann Jinky á Íslandi og sent bandaríska blaðinu New York Times afrit af þeim.
Fram kemur á fréttavef New York Times, að Samuel Estimo, lögmaður Marilyn á Filippseyjum, hafi sent Þórði bréf og beðið um að borið verði saman sýni úr systursonum Fischers og sýni, sem tekin voru úr líki Fischers í sumar til að ganga úr skugga um að líkamsleifar Fischers séu í raun í gröfinni í Laugardælakirkjugarði.
Þórður, sem var viðstaddur þegar sýnin voru tekin úr líki Fischers, hefur lýst því yfir að enginn vafi leiki á að lík Fischers hafi verið í gröfinni. Hefur hann tilkynnt Marilyn og Estimo að faðernismálið verði látið niður falla.
Estimo hefur, auk þess að senda tölvupóstsamskipti sín við Þórð og fleiri til fjölmiðla, sent New York Times niðurstöður DNA-rannsóknarinnar þótt þær séu merktar sem trúnaðarmá.