Áfall að ekki náðist samstaða

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir það ákveðið áfall að ekki hafi náðst samstaða í þingmannanefndinni. Hún gagnrýnir lögin um Landsdóm og segir að þingið hefði átt að vera búið að afnema þau fyrir löngu sem hefði þýtt að ráðherrar væru ákærðir fyrir almennum dómstólum.

„Auðvitað hefði verið betra að það hefði komið einróma niðurstaða frá þessari nefnd. Það styrkir málið í heild sinni. Það er hins vegar að verulegu leyti samstaða um tillögur nefndarinnar, en það vekur líka athygli mína að tveir flokkar vilja ekki fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það segir sína sögu.“

Jóhanna sagði að í skýrslunni væri að finna mjög gagnlegar tillögur um breytingar á stjórnkerfinu. „Þetta er mikill áfellisdómur yfir stjórnkerfinu.“

„Við skulum hafa í huga að þetta er Landsdómur og þingmenn eru settir í mjög erfiða stöðu. Þingmenn fara raunverulega með ákæruvaldið. Ég hef gagnrýnt þessi lög í gegnum tíðina og viljað fá breytt. Það hefði átt að vera búið að breyta þessum lögum fyrir löngu. Þingflokkur minn flutti tillögu árið 2003 um að leggja niður Landsdóm og ráðherrar sættu ábyrgð samkvæmt almennum dómstólum.“

Jóhanna var spurð hver væru rök fulltrúa Samfylkingarinnar fyrir því að ákæra ekki Björgvin G. Sigurðsson. Hún sagðist eiga eftir að kynna sér þau rök og gæti því ekki svarað því að svo stöddu.

Jóhanna var líka spurð hvort hún hefði trú á að þeir þrír ráðherrar sem Samfylkingin leggur til að verði ákærðir verði sakfelldir. „Við höfum ekkert farið ofan í þetta með þeim hætti. Við vorum fyrst og fremst að gera grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar og tillögum og hugmyndum hennar. Það var ekki farið efnislega farið ofan í þetta á þessum fundi. Við þurfum lengri tíma í það.“

Jóhanna var spurð hvort þessar tillögur myndu róa almenning. „Ég vona það. Til þess var þetta sett á laggirnar, en þetta er mikill áfellisdómur á stjórnkerfið, stjórnmálamenn, þingið, fjármálamarkaðinn o.s.frv. í framhaldi að skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Viðfangsefnið er að taka á því. Þarna eru mjög gagnlegar og stórmerkar tillögur um breytingar á stjórnkerfinu.“

Jóhanna sagðist telja að þingið þyrfti meira en þrjá daga til að ræða þetta mál og afgreiða þær tillögur sem lagðar hafa verið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka