Rannsóknarnefnd Alþingis var ekki falið að meta hvort ákæra ætti ráðherra fyrir lögbrot í starf, heldur er í skýrslu nefndarinnar tekið sérstaklega fram að það komi í hlut Alþingis að ákveða hvort slíkri málsmeðferð verði hrundið af stað.
Rannsóknarnefndinni var á hinn bóginn falið að leggja mat á „hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni,“ eins og segir í lögum um nefndina.
Gagnvart ráðherrum er fjallað um þetta í 7. bindi skýrslunnar, 21. kafla, m.a. frá bls. 291.
Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að þrír ráðherrar hefðu gerst sekir um mistök eða vanrækslu, í skilningi laga um nefndina. Það eru þeir Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson.
Nefndin segir að þær alvarlegu upplýsingar um stöðu og horfur í rekstri íslensku bankanna sem fram komu á fyrstu mánuðum ársins 2008, hafi gefið Geir fullt tilefni til að kalla eftir frekari upplýsingum og gögnum og eftir atvikum tillögum um hvort nauðsyn væri á sérstökum aðgerðum.
Dagsetningarnar sem hér er vísað til varða annars vegar fund bankastjórnar Seðlabanka Íslands með Geir, Árna M. Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur 7. febrúar og hins vegar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar gagnvart dönsku, norsku og sænsku seðlabönkunum um raunhæfar aðgerðir til að minnka íslenska bankakerfið.
Þar að auki hafi Geir haft fullt tilefni til að fylgja eftir og fullvissa sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag.
Nefndin telur að með athafnaleysi hafi Geir látið hjá líða að bregðast við yfirvofandi hættu á viðeigandi hátt og þannig sýnt af sér vanrækslu.
Björgvin G. Sigurðsson, sem tók við sem viðskiptaráðherra í maí 2007, fór með mál sem vörðuðu fjármálamarkað og þar með málefni bankanna. Honum hafi því borið að hafa almennt eftirlit með því hver staðan væri í þessum málaflokki. Þær upplýsingar sem hann hafi fengið á fyrstu mánuðum ársins 2008 hefðu gefið honum fullt tilefni til að hafa frumkvæði að sérstökum aðgerðum. Tekið er fram að rannsóknarnefndin viti af því frumkvæði sem hann leitaðist við að sýna á fundi ríkisstjórnarinnar 12. ágúst. Mat nefndarinnar á einkum við atburðarásina fram að því tímamarki. Hann er gagnrýndur fyrir aðgerðaleysi í málefnum Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fyrir að fylgja því ekki eftir að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga úr útibúi yfir í dótturfélag. Líkt og Geir og Árni hafi hann með athafnaleysi sýnt af sér vanrækslu.
Að því leyti sem störf einstaklinga í þessum hópi komu til nánari athugunar vegna hugsanlegra mistaka eða vanrækslu í starfi, var það mat nefndarinnar að ekki væru forsendur til að fjalla frekar um störf Ingibjargar Sólrúnar í embætti utanríkisráðherra.