Ekki samstaða í nefndinni

Niðurstöðum nefndarinnar verður dreift á Alþingi í dag.
Niðurstöðum nefndarinnar verður dreift á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Ekki er samstaða innan þingmannanefndarinnar sem fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingi. Þetta kom fram í fréttum RÚV, sem segir að nefndin muni skila þremur álitum varðandi spurninguna um hvort ákæra eigi fyrrverandi ráðherra.

Í fréttinni sagði að fulltrúar VG, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar vildu að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir, þau Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Fulltrúar Samfylkingar vildu að einungis Geir og Ingibjörg yrðu ákærð og fulltrúar Sjálfstæðisflokks vildu ekki að Alþingi samþykkti að ákæra.

Búið er að birta á vef Alþingis dagskrá þingfundar sem boðaður hefur verið kl. 17 í dag. Á fundinum verður skýrslu þingmannanefndarinnar dreift til þingmanna. Ekki er gert ráð fyrir að neinar umræður verði á fundinum. Umræður um skýrsluna hefjast síðan á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka