Leggja til rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða

Þingmenn ræðast við á Alþingi í dag.
Þingmenn ræðast við á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Þingmannanefnd, sem fjallað hefur um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, leggur til að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á vegum Alþingis á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi.

Segir nefndin í skýrslu sinni, sem birt var í dag, að  málefni lífeyrissjóða kalli á sérstaka rannsókn og greiningu sem rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki unnt að gera. Þegar niðurstöður slíkrar rannsóknar liggi fyrir sé mikilvægt, að vönduð umræða fari fram um hlutverk lífeyrissjóða í framtíðinni, starfshætti og fjárfestingarstefnu. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.

Þá leggur þingmannanefndin til, að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á vegum Alþingis á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi.  Þingmannanefndin telur að rannsaka þurfi fjölmargt í starfsemi sparisjóðanna, a.m.k. frá því að viðskipti með stofnfé voru leyfð.

Þingmannanefndin leggur til að gerð verði stjórnsýsluúttekt á vegum Alþingis á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Þá leggur þingmannanefndin til að metnir verði kostir og gallar sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins að lokinni stjórnsýsluúttektinni.

Telur nefndin mikilvægt að við slíkt mat verði höfð hliðsjón af þeirri reynslu er til varð við bankahrunið og að skýrt verði kveðið á um hvaða stofnun sé ætlað það hlutverk að hafa heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu og fjármálalegan stöðugleika og bera ábyrgð á að samræma viðbrögð.

Þingmannanefndin leggur einnig til, að viðskiptanefnd Alþingis verði falið að hafa forgöngu um endurskoðun á lögum um endurskoðendur. Til grundvallar þeirri vinnu fari fram á vegum Alþingis ítarleg úttekt á störfum ytri endurskoðenda fram að hruni bankanna í október 2008. Þá verði einnig hafðar til hliðsjónar þær breytingar sem gerðar voru á lagaumhverfi endurskoðenda í Bandaríkjunum með hinum svokölluðu Sarbanes-Oxleylögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert