Nú stendur yfir endurnýjun á upplýsingakerfum allra strætisvagna Strætó bs. sem mun gera fyrirtækinu kleift að bæta þjónustu sína umtalsvert á komandi misserum.
Sumir farþegar hafa þegar orðið varir við fyrstu breytingarnar sem nýja kerfið hefur í för með sér, en þær felast í að nafn næstu biðstöðvar er sjálfkrafa kynnt í hátalarakerfi vagnsins. Margir eldri borgarbúar muna eflaust þá gömlu tíma, þegar vagnstjórarnir kölluðu upp nafn næstu biðstöðvar, t.d. Múli, þegar komið var að þeim bæ við Suðurlandsbraut. Þetta var síðar aflagt.
Þjónusta sú sem nú verður boðið upp á er vel þekkt erlendis og hafa stórir notendahópar strætó óskað eftir að hún verði tekin upp hér á landi, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.