Eygló Harðardóttir, sem sæti átti í þingmannanefndinni, segir að hver og einn þingmaður verði að gera upp við sig hvort hann vilji samþykkja tillögu um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum. Þeir verði að skoða tillöguna vel. Hún lítur ekki á þetta sem flokkspólitískt mál.
„Í þingmannanefndinni varð hver og einn ráðherra að gera upp við sig hvort gefa ætti út ákæru eða ekki. Það sama á gilda um hvern og einn þingmann sem sat ekki í nefndinni. Þeir eiga eftir að kynna sér málið og taka síðan ákvörðun.“
Eygló sagði að samstaða hefði náðst um mikilvæga hluti skýrslunnar. „Það varð sameiginleg niðurstaða hvað sjálfa skýrsluna varðar. Hún er okkar leiðarljós inn í framtíðina um hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þessu. Ég er mjög stolt af þeirri niðurstöðu. Í mínum huga lá það alltaf fyrir hvað varðar ráðherraábyrgðina, að þó að við myndum reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu þá yrði á á endanum hver og einn þingmaður að taka afstöðu til þess hvernig hann mat gögnin.“
Eygló sagðist telja að þingnefndin væri að senda mikilvæg skilaboð til þingsins. „ Það er mikilvægt að styrkja þingið gagnvart framkvæmdavaldinu. Lagt er til að svokallað oddvitaræði sem hefur ríkt hér allt of lengi verði lagt af. Það eru mjög sterk skilaboð til fjármálafyrirtækjanna um hvernig við viljum að þau starfi. Við erum líka með skilaboð til eftirlitsstofnana og við gagnrýnum stjórnsýsluna sem þarf að breytast.“