„Mun verra en við bjuggumst við“

Perla lagði upp frá Reykjavík.
Perla lagði upp frá Reykjavík. Árni Sæberg

„Þetta er mun verra en við bjuggumst við,“ segir Óttar Jónsson, skipstjóri á dýpkunarskipinu Perlunni, sem er að dæla sandi úr botninum framan við Landeyjarhöfn. Hann segist allt eins eiga von á að skipið verði 4-5 daga að dýpka áður en Herjólfur getur farið að sigla inn í höfnina.

Mælingamenn frá Siglingastofnun voru við mælingar við Landeyjarhöfn í gær og sagði Óttar að mælingin sýndi að bætt hefur í sandrifið sem lokar höfninni.

„Það er orðið örgrunnt hérna,“ sagði Óttar þegar hann var spurður um dýpið niður á sandrifið. Hann sagði að miklar breytingar hefðu átt sér stað við höfnina á síðustu vikum, en mjög eindregin austanátt hefur verið við suðurströndina síðustu daga.

Spáð er slæmu veðri á morgun og sagðist Óttar ekki reikna með að hægt yrði að vinna að dýpkun hafnarinnar meðan veðrið gengur yfir. Ölduhæð má ekki fara yfir einn metra meðan unnið er að dýpkun. Mjög gott veður er við Landeyjarhöfn þessa stundina og því gengur vinnan vel. Eftir helgina er spáð norðanátt.

Perlan dælir sandinum upp í skipið og síðan er honum siglt lengra frá ströndinni þar sem honum er sleppt niður. Skipið tekur um 300 rúmmetra í hverri ferð. Unnið er allan sólarhringinn meðan veður leyfir.

Óttar á hins vegar ekki von á að Herjólfur geti farið að sigla inn í Landeyjarhöfn fyrr en eftir nokkra daga. Mikill sandur hafi safnast fyrir framan við höfnina og eins getur veður tafið vinnuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert