Ekki reyndist vera meirihluti innan þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, fyrir tillögu um að skipa rannsóknarnefnd til að fjalla um einkavæðingu ríkisbankanna upp úr aldamótunum.
Fram kemur í skýrslu þingmannanefndarinnar, að Oddný G. Harðardóttir og Magnús Orri Schram, þingmenn Samfylkingarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, lögðu til að gerð yrði sérstök rannsókn á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna.
Vísuðu þau til þess að rannsóknarnefnd Alþingis tiltók það sérstaklega í skýrslu sinni að nefndin „hefði ekki látið framkvæma heildarúttekt á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eða tengdum málefnum“. Af þessum sökum var það mat þingmannanna að framkvæma beri ítarlega rannsókn svo fullljóst verði hvernig staðið var að einkavæðingunni.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, létu bóka að í ljósi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003, og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna, að frekari rannsókn á einkavæðingarferlinu við sölu ríkisbankanna skili samfélaginu engu. Jafnframt sé hæpið að halda því fram að ekki hafi verið fagþekking til staðar við einkavæðingu bankanna þar sem HSBC, einn stærsti banki heims, hafi verið aðalráðgjafi við ferlið og erfitt sé að taka undir að hann búi ekki yfir fagþekkingu.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Eygló Harðardóttir, þingmenn Framsóknarflokksins, létu einnig bóka að að frekari rannsókn á sölu bankanna skili samfélaginu engu. Að mati þingmannanna hafi sala og einkavæðing ríkisbankanna verið rétt ákvörðun, en verklagið og atburðarásin við einkavæðingarferlið hins vegar ekki verið til eftirbreytni.
Þingmennirnir segjast því taka undir þær ávirðingar sem fram komi í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um verklag við sölu og einkavæðingu ríkisbankanna, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Segjast þau Eygló og Sigurður Ingi telja, að ráðherrar sem stýrðu einkavæðingarferlinu við sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands beri á því fulla pólitíska ábyrgð og lýsa þau yfir vanþóknun sinni á störfum þeirra við það ferli.
Atli Gíslason, þingmaður VG og formaður þingmannanefndarinnar, stóð ekki að neinni af þessum bókunum.