Ekki þingmeirihluti fyrir ákæru á hendur Björgvini

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Kristinn

Ef þingmenn greiða atkvæði um ákærur gegn fyrrverandi ráðherrum í samræmi við flokkslínur verður Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, ekki ákærður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni vilja ekki að Björgvin verði ákærður og þessir flokkar eru með 36 þingmenn á þingi af 63.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þingamannanefndinni telja ekki rétt að ákæra á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þeir telja að þó ýmislegt megi finna að störfum fyrrverandi ríkisstjórnar þá sé ekki líklegt að ákærur leiði til sakfellingar.

Fulltrúar Samfylkingar í þingmannanefndinni leggja fram tillögu um að Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra verði ákærð.

Öruggur meirihluti er fyrir því að þessir fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir ef þingmenn VG, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Hreyfingarinnar greiða atkvæði í samræmi við tillögur meirihluta þingmannanefndarinnar.

Umræður um ákærurnar hefjast á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert