Geir: Fundurinn 7. febrúar markaði ekki þáttaskil

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir í greinargerð sinni til þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að með ólíkindum sé að tekist hafi að gera fund, sem haldinn var 7. febrúar 2008, að sérstöku aðalatriði í atburðarásinni í aðdraganda bankahrunsins.

Í þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar, þar sem  lagt er til að mál verði höfðað fyrir landsdómi á hendur Geir og þremur öðrum ráðherrum, segir m.a. að Geir hafi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um ástand fjármálakerfisins þótt sérstök ástæða hafi verið til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008.

Einnig vísar þingmannanefndin til fundar Geirs og Ingibjargar Sólrúnar með  bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008.

Geir segir í greinargerð sinni, að  á fundinum 7. febrúar hafi verið lesin upp drög að frásögn af fundum formanns bankastjórnar Seðlabankans og öðrum starfsmanni bankans af fundum með bankamönnum og lánshæfismatsfyrirtækjum í London. Ekki hafi verið haft fyrir því af hálfu bankans að senda fundarmönnum hina skriflegu útgáfu frásagnarinnar, sem dagsett sé nokkrum dögum síðar og birt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 

„Þetta er auðvitað ámælisvert í ljósi þess hve mikið var síðar lagt upp úr þessum fundi og mikilvægi þessa minnisblaðs. Ég fékk þessa frásögn ekki í hendur fyrr en  u.þ.b. ári eftir að ég lét af embætti forsætisráðherra er ég prentaði hana sjálfur út af netinu," segir Geir.

Hann segir svo, að fundurinn 7. febrúar hafi aðeins verið einn þáttur í víðtæki ferli og samstarfi ríkisstjórnar og Seðlabanka. Ferð seðlabankastjóra til London hafi verið liður í viðleitni íslenskra stjórnvalda til að verjast því ástandi, sem upp var komin á alþjóðlegum lánamörkuðum með því að efla gjaldeyrisvarasjóð landsins. Segir Geir að ferðin hafi verið farin með fullri vitund sinni. 

„Ég varð aldrei var við að yfirmenn bankans teldu að á fundinum 7. febrúar hefði orðið einhver sérstök þáttaskil í okkar samstarfi eða málefnum íslensku bankanna. Það er kenning sem ég varð ekki var við fyrr en löngu eftir fall bankanna," segir Geir. 

Greinargerð Geirs H. Haarde

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert