Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir tók í dag við sem prestur í Oppdal-kirkju í Noregi. Hún er 19. presturinn sem þjónar í prestakallinu síðan það var stofnað á 17. öld og fyrsta konan til að gegna starfinu.
Fjallað er um nýja prestinn í héraðsmiðli íbúa í Oppdal. „Þú hefur tekið stórt og mikilvægt skref,“ sagði prófasturinn Øystein Flø þegar hann setti séra Brynju inn í embættið. Brynja fékk góðar móttökur kirkjugesta sem klöppuðu eftir að hún hafði verið sett í embætti.
Brynja lærði guðfræði við Háskóla Íslands. Hún stundaði nám í Noregi og á ættingja í Noregi sem voru viðstaddir vígsluathöfnina. Brynja þakkaði kirkjugestum góðar móttökur. Tekið er fram í fréttinni að kirkjugestir hafi verið spenntir að sjá hversu góða norsku nýi presturinn talaði og þeir hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum.
„Ég svaf vel síðustu nótt og vaknaði snemma til að ganga frá ræðunni,“ sagði Brynja og viðurkennir að hún hafi verið dálítið stressuð á stóra deginum. Hún hafi hins vegar fengið afar hlýlegar viðtökur frá um 300 kirkjugestum. Meðal þeirra var Helga Vigdís, fimm ára dóttir Brynju.
Í frétt opp.no kemur fram að skortur sé prestum í Mið-Noregi.