Landsdómur er sjónarspil

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, segir fátt nýtt koma fram í skýrslu …
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, segir fátt nýtt koma fram í skýrslu þingmannanefndarinnar. mbl.is

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, segir tillögu þingmannanefndar um að sækja fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdómi fátt annað en sjónarspil sem þjóni engu réttlæti. Úrræðið sé gamaldags og ólíklegt til raunverulegs árangurs við uppgjör í þjóðfélaginu.

Stefanía segist sjá lítinn tilgang í pólitískum réttarhöldum á borð við Landsdóm. Pólitískt uppgjör hafi átt sér stað í síðustu kosningum og svo muni líklega vera í kosningum komandi ára. Hafi menn gerst brotlegir við lög eigi að nýta hefðbundnar leiðir á borð við lögreglu og saksóknara.

„Ég sé ekki að Landsdómur eigi að vera einhver pólitískur vettvangur fyrir uppgjör við frjálshyggjuna.“ Ókostir þeirrar stefnu sem hafi verið ráðandi síðustu ár verði þannig látin bitna á nokkrum einstaklingum.

„Tillagan um að sækja ráðherrana fjóra fyrir afglöp í starfi er á skjön við megin niðurstöðu rannsóknarskýlunnar um að bankakerfið hafi verið orðið það útþanið þegar árið 2006 að ekki hefði mátt forða því frá hruni.“

Stefanía segir einnig varhugavert að þingmannanefndin hafi ekki kallað ráðherrana fyrrverandi til svo þeir gætu útskýrt sín mál. Rödd þeirra hafi lítið heyrst eftir bankahrun. 

Fátt nýtt í skýrslunni

„Þingmannanefndin er í raun að endursegja helstu niðurstöður rannsóknarskýrslu Alþingis og draga saman þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu allt frá árinu 2000. Því hefði nefndin löngu getað verið búin að skila niðurstöðu sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert