Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, segir að sig reki ekki minni til þess að hin alþjóðlega lausafjárkreppa hafi verið formlega rædd á ríkisstjórnarfundum eða staða innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, fyrr en allt var komið í óefni.
Þórunn segir þetta í svari til þingmannanefndarinnar, en nefndin óskaði eftir viðbrögðum frá öllum ráðherrum sem sátu í ríkisstjórn Geirs H. Haardes.
„Ekki rekur mig minni til þess að hin alþjóðlega lausafjárkreppa hafi verið rædd formlega við ríkisstjórnarborðið eða staða innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, fyrr en allt var komið í óefni,“ segir Þórunn.
Þórunn segir að tveir ráðherrar frá hvorum flokki hafi setið í svokölluðum ríkisfjármálahóp stjórnarinnar. Þetta voru Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Jóhanna Sigurðardóttir. Þessi hópur hafi tekið allar meiriháttar ákvarðanir um útgjöld. Fagráðherrar hafi átt framgang sinna mála undir áheyrn og skilningi þessara ráðherra.
Þórunn segir að hún hafi sem umhverfisráðherra ekki verið þátttakandi á þeim fundum sem málefni bankanna voru rædd. Hún hafi hins vegar fylgst með fréttum eins og aðrir af lausafjárkreppunni. Sér hafi verið ljóst að fall fjárfestingabankans Lehman Brothers 15. september 2008 hafi markað tímamót.
Þórunn segir að „Glitnishelgina“ svokölluðu hafi hún ekki haft hugmynd um hvað gekk á í forsætisráðuneytinu. „Eftir á að hyggja er mér nær að halda að aldrei hafi staðið til að gera formann eða ráðherrum Samfylkingarinnar viðvart um það sem var í aðsigi, enda frétti formaður Samfylkingarinnar af erfiðleikum Glitnis „utan úr bæ.“ segir í bréfi Þórunnar.
Þórunn segir að formbinding vinnubragða hafi verið lítil innan stjórnarráðsins og sú hefð hafi skapast að betra sé að skrásetja ekki niðurstöður funda og gera þær ekki opinberar.
„Á stundum hefur mér fundist að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands séu eins og 12 trillukarlar sem hittast í kaffi tvisvar í viku, bera saman aflabrögð og horfur, standa saman gegn utankomandi áreiti eða ógnunum en eru jafnframt í samkeppni innbyrðis um aflann. Það fyrirkomulag kann að henta ef gæftir eru góðar og lítil misklíð í hópnum. Reynsla haustsins 2008 hlýtur að kenna okkur að slíkt fyrirkomulag stenst ekki gjörningaveður og getur leitt af sér úrræðaleysi og kerfislömun með hörmulegum afleiðingum fyrir land og lýð.“