Sturla Böðvarsson segir að ekki verði annað séð en að Samfylkingin hafi talið stöðu efnahagslífsins sterka árið 2007 þegar flokkurinn hóf ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. A.m.k. hefði sú ríkisstjórn sem þá tók við átt að bregðast hart við ef hún hefði haft annað mat á stöðunni.
Þetta segir í svari sem Sturla sendi þingmannanefndinni en hann var ásamt fleiri fyrrverandi ráðherrum beðinn um mat á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
„Þegar litið er yfir stöðu mála í upphafi kjörtímabilsins eftir kosningarnar vorið 2007 blasir við að það var mat ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að staða þjóðarbúsins væri svo sterk að óhætt væri að þeirri ástæðu að draga úr veiðum á helsta nytjastofni okkar og draga þar með saman tekjur þjóðarbúsins.
Á þessum tíma taldi ríkisstjórnin rétta að draga úr veiðum til þess að styrkja fiskistofnana þegar þjóðin hefði efni á því. Þessi ákvörðun var mjög umdeild. Jafnframt voru ríkisútgjöld aukin verulega við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008.
Þessar ákvarðanir báru ekki merki þess að hinu nýju ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni teldu stöðuna veika eftir 16 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins. Öðru nær. Þess í stað bentu þessar ákvarðanir eindregið til þess að stjórnvöld hefðu trú á að efnahagsstaðan væri sterk og bankakerfið myndi rétta úr kútnum. Að öðrum kostið hefði ríkisstjórnin sem tók við af þeirri sem undirritaður sat í hlotið að bregðast hart við strax þegar hún tók við. Stjórnkerfið allt virtist grandalaust allt fram á árið 2008 þegar bankarnir hrundu eins og spilaborg,“ segir Sturla.