„Hálfgerð sprenging"

Lestin, sem lenti í árekstrinum í gær.
Lestin, sem lenti í árekstrinum í gær. Reuters

Íslensk kona, sem var í hraðlest sem lenti á traktors­gröfu í Svíþjóð í gær, seg­ir að hálf­gerð spreng­ing hafi orðið þegar árekst­ur­inn varð. Allt og all­ir hent­ust til, rúður sprungu inn í lest­ina,  sæti losnuðu og gler­brot dreifðust um allt.  Þá myndaðist reyk­ur en eng­inn eld­ur sást.      Íslensku kon­una sakaði ekki en 18 slösuðust við árekst­ur­inn, þar af ein kona lífs­hættu­lega. 

Árekst­ur­inn varð ná­lægt lest­ar­stöðinni í Kimstad milli Lin­köp­ing og Norr­köp­ing. Um 250 farþegar voru í lest­inni sem fór frá Stokk­hólmi síðdeg­is í gær áleiðis til Mal­mö.

Ing­unn Ósk Ólafs­dótt­ir, sem var meðal farþega í lest­inni, seg­ir í tölvu­pósti til mbl.is, að rétt áður en slysið varð hafi verið til­kynnt í hátal­ara lest­ar­inn­ar að stöðva þyrfti og bíða vegna vinnu við lest­artein­ana. Lest­in lagði síðan af stað aft­ur eft­ir 15 mín­útna bið og skömmu síðan lenti hún á traktors­gröf­unni, sem var á braut­artein­un­um.

Ing­unn Ósk seg­ir, að við þetta hafi lest­in farið út af tein­un­um og hefði sjálfsagt oltið hefði hún verið búin að ná full­um hraða. Ing­unn seg­ir, að ekki hafi gripið um sig skelf­ing meðal farþeg­anna og ótrú­lega vel hafi gengið að koma fólki úr lest­inni. Sjálf var Ing­unn í þeim vagni, sem mest skemmd­ist við árekst­ur­inn.

Ing­unn Ósk er lækn­ir og hugaði að slösuðu fólki ásamt þrem­ur öðrum lækn­um í lest­inni. Þeir sem slösuðust voru flutt­ir með sjúkra­bíl­um á ná­læg sjúkra­hús. Ein stúlka var al­var­lega slösuð á höfði og veitti Ing­unn Ósk og tveir aðrir lækn­ar henni bráðahjálp. 

Að sögn frétta­vefjar Dagens Nyheter var slasaða kon­an flutt á há­skóla­sjúkra­húsið í Lin­köp­ing þar sem hún gekkst und­ir aðgerð í nótt. Ökumaður traktors­gröf­unn­ar slasaðist einnig al­var­lega og var flutt­ur á Vr­inn­evisjuk­huset í Norr­köp­ing.

Meðal þeirra sem slösuðust voru þrír dansk­ir dreng­ir, sem voru í hópi danskra ung­menna á leið heim  úr keppn­is­ferð.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert