Hörð gagnrýni á einkavæðinguna

Unnur Brá Konráðsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður þingamannanefndarinnar, segir að í sameiginlegri ályktun þingmannanefndarinnar sé að finna harða gagnrýni á hvernig var staðið að einkavæðingu bankanna. Hún segist ekki sjá að frekari rannsókn á þessu máli skili neinu.

Unnur vakti í ræðu sinni á Alþingi athygli á niðurstöðu þingmannanefndarinnar um einkavæðingu bankanna. Þar segir: „Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.

Þingmannanefndin tekur undir ályktanir rannsóknarnefndarinnar að Alþingi hafi ekki sett framkvæmdarvaldinu nægilega skýr skilyrði við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Einnig hafi verið gerð stór mistök af hálfu framkvæmdarvaldsins í ferli einkavæðingar bankanna þegar fallið var frá upphaflegum kröfum um dreifða eignaraðild, faglega reynslu og þekkingu við val á kaupendum og þegar bankarnir voru báðir seldir á svipuðum tíma við erfiðar markaðsaðstæður.“

Unnur Brá sagði að rannsóknarskýrsla Alþingis hefði skoðað afmarkaða þætti í einkavæðingu bankanna. Ríkisendurskoðun hefði einnig skoða einkavæðingu. Hún sagði að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru þeirrar skoðunar að frekari rannsókn á þessu máli skiluðu engu. Hún gagnrýndi ennfremur orð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að ef þingmannanefndin rannsakaði ekki einkavæðingu bankanna yrði að samþykkja sérstaka tillögu um að slík rannsókn færi fram. Hún sagði að með þessu hefði framkvæmdavaldið reynt að hafa áhrif á störf nefndarinnar.

Unnur Brá sagði mikilvægt að horfa til framtíðar, en þingmannanefndin leggur til að Alþingi lögfesti rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis sé þar tryggt. „Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að á næstu árum og áratugum er stefnt að því að selja og/eða einkavæða fyrirtæki sem hafnað hafa í ríkiseigu vegna bankahrunsins. Jafnframt telur þingmannanefndin að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti selja eigi og/eða einkavæða ríkisfyrirtæki.“

Unnur Brá sagði að ef einkavæðing bankanna yrði rannsökuð frekar þyrfti líka að rannsaka þá einkavæðingu á bönkunum sem fram fór eftir hrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka