Hrunið má rekja til einkavæðingarinnar

Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokks átti sæti í þingmannanefndinni. Ragnheiður sést …
Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokks átti sæti í þingmannanefndinni. Ragnheiður sést hér á Alþingi í dag ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Gunnari Braga Sveinssyni. Árni Sæberg

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, segir að færa megi rök fyrir því að stefnubreyting sem tekin var af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þegar bankarnir voru einkavæddir, eigi stóran þátt í hruni fjármálakerfsins.

Ragnheiður gerði eins og fleiri þingmenn í umræðum um skýrslu þingmannanefndarinnar stöðu Alþingis að umfjöllunarnefni. „Það er dapurlegt hve lítið hefur breyst í verklagi og starfsháttum Alþings þrátt fyrir hrun og þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þess verkefnis að byggja Ísland upp að nýju úr þeim rústum sem hér urðu í efnahagshruninu.“

Ragnheiður sagði að margt hefði brugðist í aðdragenda hrunsins. Alþingi hefði m.a. brugðist. „Sá lagarammi sem sniðinn var fyrir íslenskt fjármála- og atvinnulíf reyndist í veigamiklum atriðum gallaður og á því ber Alþingi mesta ábyrgð.“

Hún tók fram að enginn vafi léki á því að háttsemi innan bankanna hefði öðru fremur leitt til falls bankanna. Hún sagðist taka undir mat rannsóknarnefndar Alþingis um þetta atriði.

„Frá því að fjármálakerfið hrundi á Íslandi hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra ráðstafana. Sumt hefur verið fálmkennt og án nokkurrar skýrrar stefnu, en öðru hefur miðað í rétta átt. Augljóst er að Alþingi hefur ekki tekið forystu í þeim efnum heldur þvert á móti hefur löggjafarsamkoman beðið eftir viðbrögðum og tillögum framkvæmdavaldsins. Veikleiki löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu hefur þannig æ betur í ljós komið eftir því sem lengra líður frá hruni fjármálakerfisins.“

Þingmannanefndin lýsir áhyggjum sínum vegna þessa. Ragnheiður sagði  það vera þungamiðju tillagna þingmannanefndarinnar að gera löggjafann óháðan og sjálfstæðan gagnvart framkvæmdavaldinu.

Alvarleg mistök

„Þegar þeirri spurningu er svarað hvort hægt hefði að koma í veg fyrir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008 er ekki nægjanlegt að horfa til athafna eða athafnaleysis stjórnvalda síðustu mánuðina fyrir hrun. Það er ótækt. Rætur vandans liggja dýpra en svo. Ekki verður annað séð en alvarleg mistök hafi verið gerð við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands þegar horfið var frá stefnu stjórnvalda að setja hámark á eignarhluta hluthafa og tengdra aðila.

Sú stefnubreyting, sem varð í kjölfar töluverðra pólitískra átaka, varð til þess að fámennur hópur náði öllum völdum innan íslenskra fjármálakerfisins og afleiðing þess er rakin ágætlega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Það má vel leiða rök að því að stefnubreyting ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eigi stóran þátt í því hvernig fór, þeirrar ríkisstjórnar sem hérna sat frá 1993-2007.“

Ragnheiður sagði að aðild Íslands að EES hefði opnað íslenskum bönkum markað erlendis. Það benti hins vegar margt til þess að skipulag og styrkur bankanna hefði verið þannig að ekki hefði verið skynsamlegt fyrir bankana að fara í útrás.

Ragnheiður benti á að rannsóknarskýrslu Alþingis hefði ekki fjallað um hvernig erlendar fjármálastofnanir opnuðu fyrir lánveitingar til íslenskra banka. Ekki væri þar heldur fjallað um frammistöðu matsfyrirtækjanna sem mátu lánshæfi íslenskra banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka