Meiri líkur en minni virðast samkvæmt heimildum Morgunblaðsins til þess að Alþingi samþykki þingsályktunartillögur um ákærur á hendur þremur af fjórum fyrrverandi ráðherrum og að Björgvin G. Sigurðsson sleppi við ákæru.
Heimildir Morgunblaðsins herma að skiptar skoðanir séu einkum innan Samfylkingarinnar. Þingflokkur hennar fundaði fram á kvöld í gær en þingmenn vildu ekki tjá sig eftir fundinn.
Skýrsla þingmannanefndarinnar verður tekin fyrir á Alþingi í dag og í beinu framhaldi á að taka fyrir þingsályktunartillögur um ákærur á hendur ráðherrum. Þótt gert sé ráð fyrir því í starfsáætlun þingsins að því ljúki á miðvikudag efast margir þingmenn, sem Morgunblaðið ræddi við, um að það náist. Mál sem þetta sé fordæmalaust hér á landi og líklegra að atkvæðagreiðsla fari ekki fram fyrr en í lok þessarar viku eða í byrjun þeirrar næstu.