Sýndu samstöðu með bankamönnum

Magnús Orri Schram
Magnús Orri Schram

Magnús Orri Schram, alþingismaður Samfylkingar, sagði í umræðum um skýrslu þingmannanefndar að stjórnmálamenn hefðu ítrekað sýnt samstöðu með bankamönnum fyrir hrun.

Magnús Orri sagði að stjórnmálamenn hefðu gert margvísleg mistök í aðdraganda bankahrunsins. „Stjórnmálamenn sýndu ítrekað ógagnrýna samstöðu með bankamönnum og færðu ábyrgðina með því yfir á almenning.“

Hann sagði ekki vera hlutverk stjórnmálamanna að taka stöðu með fjármálafyrirtækjum til að telja umheiminum trú um að fyrirtækin standi vel nema að stjórnmálamenn hefðu fyrir því haldbærar upplýsingar og traust rök. Það hefðu þeir ekki haft. Þvert á móti hefðu þeir vitað að staðan var mjög veik.


„Mín skoðun er sú að hér hafi verið á ferðinni slæleg vinnubrögð því að ráðandi aðilar fengu upplýsingar um að vandi var á höndum, en um leið er það mín skoðun að hugmyndafræði þeirrar var ekki að ganga upp. Það var kjarni þeirrar hugmyndafræði að ekki mætti hefta kraft athafnamanna né þrengja svigrúm þeirra með regluverki eða eftirliti. Vöxtur fjármálakerfisins var þannig rökrétt afleiðing af stefnu stjórnvalda á Íslandi, en ráðandi aðilar áttu hins vegar erfitt með að bregðast við þegar hættumerkin voru farin að birtast. Viðurkenning á því að vandi væri á höndum var einfaldlega of stór biti til að kyngja og þess vegna þráuðust menn við að grípa til aðgerða; lykilmenn í eftirlitsstofnunum og lykilmenn í ríkisstjórn. Slíkt hefði verið viðurkenning á því að illa hefði verið staðið að stefnunni sem var búið að leggja á undanförnum árum. Þannig varð athafnaleysið algert og tjónið mun meira en þurfti,“ sagði Magnús Orri.

Magnús Orri tók skýrt fram að það væri mat þingmannanefndarinnar að stjórnendur og aðaleigendur fjármálafyrirtækja bæru mesta ábyrgð á fjármálahruninu. „Ljóst er að fjármálastarfsemi á Íslandi einkenndist að verulegu leyti af slæmum viðskiptaháttum og vanvirðingu við lög og reglur sem kom m.a. fram í háttarlegi eigenda og stjórnenda gagnvart eftirlitsstofnunum og stjórnvöldum. Ljóst má vera af skýrslu rannsóknarnefndar að fjölmargt í starfsemi hafi leitt til verulegs tjóns fyrir almenning og hluthafa. T.d. er óeðlilegt hvernig bankarnir kölluðu fram óeðlilega eftirspurn eftir hlutabréfum í sjálfum sér og gáfu með því misvísandi upplýsingar um eftirspurn. Þá telur þingmannanefndin harðlega misnotkun bankanna á peningamarkaðssjóðum. Það er mat þingmannanefndarinnar að stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna hafi skort tilfinningu fyrir siðferðilegri jafnt sem samfélagslegri ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert