Í nýrri launakönnun SFR stéttarfélags í almannaþjónustu kemur fram að launabilið á milli starfsmanna í almannaþjónustu og starfsmanna á almennum vinnumarkaði í sambærilegum starfsgreinum hafi aukist á milli ára og sé nú 18%, almenna vinnumarkaðnum í vil.
SFR hefur nú fjórða árið í röð, í samstarfi við VR, fengið Capacent Gallup til að vinna launakönnun fyrir félagið.
Í tilkynningu frá SFR segir að niðurstöður könnunarinnar sýni að launamunur á milli starfsmanna í almannaþjónustu og starfsmanna á almennum vinnumarkaði hafi aukist milli ára. Þegar tekið hafi verið tillit til kyns, aldurs, starfsstéttar, starfsaldurs, vinnutíma, vaktaálags og menntunar, sé munurinn á heildarlaunum félagsmanna SFR og VR 18%, VR félögum í vil.
Í könnun sem var gerð í fyrra var munurinn 15% og 20% árið þar á undan.
Heildarlaun VR félagsmanna hækkuðu að meðaltali um 4,6% á síðasta ári sem er umtalsvert meira en hjá SFR þar sem heildarlaun hækkuðu einungis um 1,6%. Meðaltal heildarlauna SFR félaga voru 325.035 krónur fyrir fullt starf í febrúar 2010 en 422.027 krónur hjá VR, mismunurinn er um 100 þúsund krónur per mánuð. Inn í þessar tölur er búið að reikna þær hækkanir sem samið var um á árinu 2009 og metnar voru 2,7% launahækkun hjá VR og 1% hækkun hjá SFR.
Af tölunum má sjá að enn er þrengt mun meira að starfsmönnum í almannaþjónustunni en þeim sem starfa á almennum vinnumarkaði.
Í tilkynningu SFR segir að launaskrið hafi orðið hjá þeim síðarnefndu en ekki hjá starfsmönnum almannaþjónustunnar. Almenni vinnumarkaðurinn virðist miðað við þessar tölur vera að rétta hraðar úr kútnum eftir efnahagshrunið en sá opinberi, en starfsmenn í almannaþjónustunni sitja eftir í launaþróuninni.