Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur féllst í dag á kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að karlmaður, sem handtekinn var í gær vegna hótana í garð tveggja feðga af erlendu bergi brotnu, sæti gæsluvarðhaldi til föstudags á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Maðurinn er grunaður um að hafa hótað feðgum af kúbverskum uppruna lífláti og valdið eignaspjöllum á heimili þeirra. Maðurinn er á fertugsaldri og hefur oft komið við sögu lögreglunnar, meðal annars vegna svonefndra handrukkana.
Feðgarnir fóru úr landi í gær vegna málsins en skemmdarverk voru framin á heimili þeirra á laugardag og þeim hótað lífláti. Báðir eru þeir íslenskir ríkisborgarar, en kveikja málsins virðist vera sú að pilturinn hefur átt vingott við íslenska stúlku.
Fram hefur komið, að samband ungmennanna hafi vakið upp annarleg viðhorf og
kynþáttafordóma, meðal annars í Menntaskólanum í Kópavogi þar sem stúlkan stundar nám.
Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag, að skólayfirvöld hafi skorist í leikinn og rætt alvarlega við þá sem fyrir
kynþáttafordómunum stóðu. Haft var eftir aðstoðarskólastjóranum, að unglingarnir, sem
eru 16 ára, hafi beðist afsökunar á framgöngu sinni og lofað að láta af
henni. Síðar hafi málin færst út fyrir skólalóðina þar sem fullorðið
fólk fór að taka þátt í kynþáttahatrinu.
Tveir menn voru handteknir í gær vegna málsins, annar þeirra er á aldur við unglingspiltinn en hinn
er nokkuð eldri að sögn Hákonar Sigurjónssonar, lögreglufulltrúa. Hákon
segir að ekki hafi verið um líkamsmeiðingar að ræða heldur fyrst og
fremst hótanir í garð piltsins vegna tengsla hans við íslenska stúlku.
„Svo voru framin skemmdarverk heima hjá þessum feðgum að því er virðist eingöngu til þess að vekja ótta hjá þeim," segir Hákon.
Feðgarnir tóku þá ákvörðun í gær að flýja land, að minnsta kosti um tíma, þar sem þeir treystu sér ekki til að vera hér öryggis síns vegna á meðan málið er óleyst.