Svo virðist sem ábyrgð og virðing fyrir reglum hafi verið ábótavant bæði á íslenskum fjármálamarkaði og stjórnsýslu ef marka má niðurstöður skýrslu þingmannanefndar sem fjallað hefur um rannsóknarskýrslu Alþingis. Nefndin leggur til að reglur um fjármálafyrirtæki á Íslandi verði hertar og lög um valdsvið og ábyrgð ráðherra og sjálfstæðra stofnana verði skerpt.
Það er dómur nefndarinnar að stjórnendur og aðaleigendur íslensku fjármálafyrirtækjanna beri mesta ábyrgð á fjármálahruninu og að fjármálastarfsemi hérlendis hafi að miklu leyti einkennst af slæmum viðskiptaháttum og vanvirðingu fyrir lögum og reglum. Þá hafi skort siðferðislega og samfélagslega ábyrgð og nefnir nefndin stofnun Icesave-reikninganna, víðtæk krosseignatengsl og verðbréfaviðskipti við stærstu eigendur og lánveitingar til þeirra sem dæmi um það.
Leggur nefndin til að mörkuð verði skýr opinber stefna um hvers kyns fjármálakerfi samræmist stærð og þörfum þjóðarbúsins og hvert hlutverki ríkisins í rekstri fjármálafyrirtækja verði í framtíðinni. Því sé nauðsynlegt að endurskoða löggjöf um fjármálafyrirtæki og kauphallir. Sérstaklega mikilvægt telur nefndin að taka afstöðu til þess hvort aðskilja eigi innlánsstofnanir og fjárfestingarbanka og innlenda og erlenda starfsemi sem samstæðu félaga.
Þá leggur nefndin til að óheimilt verði að lána starfsmönnum fjármálafyrirtækja fé til kaupa á hlutabréfum með veði í bréfunum. Telur þingmannanefndin að lögbinda eigi ákvæði sem setja strangari skorður við því að fyrirkomulag launa- og lífeyrisgreiðslna til starfsmanna fjármálafyrirtækja leiði til aukinnar áhættusækni í rekstri þeirra.
Leggur nefndin til endurskoðun á stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um Stjórnarráðið. Telur hún að gera verði breytingar á lögum og reglum þannig að komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á vald- og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Skarist valdsvið tveggja eða fleiri ráðherra ber þeim með formlegum hætti að hafa samvinnu um þau vinnubrögð sem viðhöfð skuli hverju sinni þannig að ávallt sé ljóst á ábyrgðarsviði hvers þeirra er starfað.
Í því sambandi leggur nefndin til að gerð verði stjórnsýsluúttekt á vegum Alþingis á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Þá leggur hún til að í kjölfarið verði metnir kostir og gallar sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Telur nefndin mikilvægt að við slíkt mat verði höfð hliðsjón af þeirri reynslu er til varð við bankahrunið fyrir tveimur árum.
Að sögn nefndarinnar kalla málefni lífeyrissjóðanna á sérstaka rannsókn og greiningu sem rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki verið unnt að gera. Þegar niðurstöður slíkrar rannsóknar liggi fyrir sé mikilvægt að vönduð umræða fari fram um hlutverk lífeyrissjóða í framtíðinni, starfshætti þeirra og fjárfestingarstefnu. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.
Þá leggur þingmannanefndin til að gerð verði sjálfstæð og óháð rannsókn á vegum Alþingis á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi. Þingmannanefndin telur að rannsaka þurfi fjölmargt í starfsemi sparisjóðanna, að minnsta kosti frá því að viðskipti með stofnfé voru leyfð.