Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 53 ára gamlan karlmann, Auðun Þorgrím Þorgrímsson, í 2 ára fangelsi fyrir að kveikja eld í húsi við Tryggvagötu í janúar á síðasta ári. Telur dómurinn að maðurinn hafi valdið almannahættu.
Maðurinn hellti bensíni úr plastbrúsa inn í stigagang hússins og á gólf á jarðhæð og kveikti síðan í. Íbúi í húsinu komst út um útidyrahurðina áður en eldurinn kviknaði, en hann breiddist út með þeim afleiðingum að húsið varð alelda en slökkviliðinu tókst þó að slökkva eldinn fljótlega.
Fram kemur í dómnum, að maðurinn játaði sök. Sagðist hann hafa komist að því að fyrrum eiginkona hans, sem þarna bjó, hefði verið í tygjum við tvo aðra karlmenn. Sjálfur hefði hann verið á nokkurra daga fylliríi þegar þetta gerðist og eftir símtal við konuna tekið þá skyndiákvörðun í reiði, „að loka þessu greni" með því að kveikja í því. Hann hafi þó áður gætt að því hvort fleiri væru í húsinu með því að líta inn í íbúðarherbergin.
Haft er eftir manninum í dómnum, að fyrir utan leiguherbergin hafi margs konar starfsemi viðgengist í þessu húsi, svo sem vændi, kjötiðnaður fyrir taílenskan veitingastað, fíkniefnasala, viagra-dreifing, inn- og útflutningsverslun og fleira. Sagðist maðurin hafa heyrt að til stæði að rífa húsið og byggja nýtt á lóðinni.
Dómurinn hafnaði þeirri fullyrðingu mannsins, að hann hefði gengið úr skugga um að enginn væri í húsinu. Þá hlyti maðurinn einnig að verða að gera ráð fyrir því að húsið myndi allt brenna að innan og að eldurinn gæti borist úr því í næstu hús.
Í dómnum er einnig haft eftir sérfræðingi í heila- og taugalækningum, að maðurinn hafi orðið fyrir höggi framan á andlit og enni í ágúst 2007 og hafi eftir það átt við að stríða höfuðverk, svefnleysi og einbeitingarskort. Líkur séu á því að maðurinn hafi fengið framheilaskaða af þessu höggi. Einkenni um slíkan áverka geti verið lélegt innsæi, hvatvísi og dómgreindarskerðing.
Þrátt fyrir þetta álítur dómurinn að ekki séu efni til þess að efast um að maðurinn sé fyllilega sakhæfur.