Nemendur af erlendum uppruna eru tvöfalt líklegri til að verða fyrir einelti í grunnskólum en nemendur af íslenskum uppruna. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem unnin var við Háskólann á Akureyri, sem hluti af alþjóðlegri rannsókn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Rannsóknin náði til allra nemenda í 6., 8., og 10. bekkjum íslenskra grunnskóla árin 2005-2006 og 2009-10. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að 16% barna sem eiga báða foreldra af erlendum uppruna hafa lent í einelti. Það sama á við um 12% barna sem eiga annað foreldri af erlendum uppruna en 8% barna sem eiga íslenska foreldra. Börn af erlendum uppruna eru því tvöfalt líklegri til að verða fyrir einelti en börn sem eiga íslenska foreldra.
Samanburður rannsóknarinnar á milli ára leiðir hinsvegar líka í ljós að börnum virðist líða betur í grunnskólum eftir að kreppan skall á. Breytingin er mest meðal barna sem eiga annað eða báða foreldra af erlendum uppruna. Börnum íslenskra foreldra líður þó einnig betur í skólanum eftir kreppu og hefur munurinn á líðan nemenda sem eiga íslenska og erlendra foreldra hefur minnkað frá árinu 2005-2006 til dagsins í dag.
Alls tóku tæplega 12 þúsund nemendur í 172 grunnskólum þátt í könnuninni og var svarhlutfall 86-87%. Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri stýrði rannsókninni.