Frumstæð vinnubrögð komu á óvart

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

„Mér kom mjög á óvart þegar ég tók við embætti forsætisráðherra hve vinnubrögð á mörgum sviðum voru frumstæð,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í umfjöllun sinni á Alþingi um skýrslu þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

„Það er í raun merkilegt hve lítil umræða hefur farið fram um umgjörð og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ríkisráðs hér á landi, og innan stjórnarráðsins almennt. Og hve lítið við höfum litið til þróunar í nágrannlöndum okkar í því efni. Þetta hefur m.a. komið fram í störfum nefndar sem ég hef falið að fara yfir umgjörð stjórnarráðsins. Og ég á von á endanlegum tillögum um úrbætur á næstum mánuðum,“ sagði Jóhanna ennfremur.

Hún segist geta tekið undir margt í skýrslu þingmannanefndarinnar um að bæta megi vinnubrögð innan stjórnsýslunnar í forsætisráðuneytinu. „Það hafa reyndar þegar verið innleidd mörg úrbótaefni sem nefndin bendir á og önnur eru í góðum farvegi,“ sagði Jóhanna. 

Hún fagnar skýrslu þingmannanefndarinnar og segir að vinna hennar marki þáttaskil í endurreisnarstarfinu.

„Ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að um skýrslu hennar ríkir þverpólitísk sátt, bæði hvað varðar greiningu á orsökum og atburðarás í aðdraganda hruns bankanna, og ekki síður um þær leiðir sem fara skal til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig nokkurntímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka