Hvers konar klúbbur er þetta?

Ólafur Ragnar Grímsson hitti meðal annars Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, …
Ólafur Ragnar Grímsson hitti meðal annars Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, að máli í Tianjin í gær og gaf honum bók um Eyjafjallajökul.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í viðtali við Bloomberg fréttastofuna, að deilur Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave veki upp spurningar um aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu.  

„Aðgerðir Breta og Hollendinga, sem nutu lengi stuðnings Evrópusambandsins, hafa vakið upp spurningar í hugum margra Íslendinga: Hvers konar klúbbur er þetta eiginlega?" hefur Bloomberg eftir Ólafi Ragnari.

Viðtalið var tekið í Tianjin í Kína þar sem Ólafur Ragnar situr fund Alþjóðaefnahagsráðsins.

Ólafur segir í viðtalinu að Íslendingar séu reiðubúnir til að ræða um endurgreiðslu á Icesave-ábyrgðum. Hins vegar verði bresk og hollensk stjórnvöld að gera sér grein fyrir því, að Landsbankinn og netbankinn Icesave hafi ekki notið ríkisábyrgðar. 

„Enginn getur haldið því fram, að íslenska þjóðin eða pólitíska lýðræðislega kerfið á Íslandi hafi ekki brugðist með ábyrgum hætti við fjármálakreppunni. Það þýðir þó ekki, að við ættum að láta undan svívirðilegum kröfum Breta og Hollendinga," hefur Bloomberg eftir Ólafi.

Frétt Bloomberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka