Kennarar taka ekki „uppskrift" SA og ASÍ

Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands.
Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is

Einhugur ríkir í Kennarasambandi Íslands um áherslur í komandi kjarasamningum að sögn Eiríks Jónssonar, formanns sambandsins. Sóttar verði kjarabætur sem skili sér til allra, ekki bara þeirra lægst launuðu, réttindi félagsmanna varin og þess krafist að sjálfstæður samningsréttur stéttarfélaga verði virtur. Þetta kemur fram í viðtali við Eirík í Skólavörðunni.

Eiríkur bendir á í viðtalinu að nú sé verið að lengja kennaramenntun svo lengri tíma taki en áður að afla sér kennsluréttinda. Þetta sé grundvallaratriði og verði að meta til launa. „Kennarasambandið mun krefjast þess að kjarabætur í komandi kjarasamningum verði raunverulegar og að þær skili sér til allra félagsmanna en ekki einungis til þeirra sem lægst hafa launin," segir Eiríkur. KÍ hafi alla tíð stutt hækkun lægstu launa og geri enn, en nú sé nauðsynlegt að hækkanir nái líka til þeirra sem ofar eru.

Þá segir Eiríkur að félög innan KÍ muni örugglega ekki taka því í þetta skiptið að fá upp í hendurnar „uppskrift af kjarasamningum sem samin er af SA og ASÍ" eins og raunin var síðast. „Það er ekkert sem mælir gegn því að aðilar hafi með sér samstarf við gerð kjarasamninga í haust, en forsendur þess verða að vera þær að sjálfstæður samningsréttur stéttarfélaga sé virtur að fullu."

Eiríkur segir öllum ljóst að að SA og ASÍ hafa á köflum farið hamförum gegn lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Frekari skerðing á lífeyrisréttindum félagsmanna KÍ komi ekki til greina enda um kjarasamningsbundin réttindi að ræða. Viðtalið við Eirík má lesa í heild á heimasíðu Kennarasambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert