Látum niðurstöðurnar standa

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Látum bara niðurstöður rannsóknarnefndarinnar [Alþingis] standa. Það er ekki hlutverk okkar á þinginu að fara að taka þá niðurstöðu þessara sérfræðinga til sérstakrar endurskoðunar,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varðandi umfjöllun um vanrækslu fjögurra fyrrverandi ráðherra.

Bjarni, sem ræddi skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, segir að þetta hafi verið eina raunhæfa og skynsamlega leiðina fyrir þingmannanefndina að fara, líkt og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefnfdinni hafi lagt til.

Hann benti á að nefndin hefði klofnað í þrennt þegar nefndarmenn ákváðu að endurskoða niðurstöðu sérfræðinganna í rannsóknarskýrslu Alþingis.

„Fulltrúar Samfylkingarinnar þeir ganga svo langt, þegar þeir fá þetta tækifæri, til að sýkna sinn fyrrverandi ráðherra af þeim ásökunum sem bornar eru á hann af rannsóknarnefnd Alþingis. Og ég er ekki að tala hér um spurninguna um að ákæra eða ekki ákæra. Ég er bara að tala um niðurstöðuna í rannsóknarnefndarskýrslunni um að viðkomandi ráðherra hefði gerst ber að vanrækslu miðað við þau lög sem nefndin var að horfa til,“ segir Bjarni.

„Mér finnst þetta afhjúpa viðkomandi pólitík sem býr að baki niðurstöðunni. Það hefðu betur farið á því að menn hefðu leitt þessari niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis að standa. Það var sú niðurstaða sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komust að og var að mínu áliti skynsamleg,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert