Mikið tilfinningamál

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ræðir við fréttamenn.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ræðir við fréttamenn. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í umræðum um skýrslu þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis, að segja mætti að það væri eitt það erfiðasta sem hann hefði staðið frammi fyrir sem þingmaður að þurfa að taka afstöðu til ábyrgðar ráðherra og hugsanlegrar ákæru á hendur þeim fyrir landsdómi.

„Ég tek það skýrt fram fyrir mína hönd, að ég efast ekki um að það fólk sem í hlut á, þessir fjórir ráðherrar, vilja vel og vildu vel. Þetta snýst ekki um það. Það þýðir hins vegar ekki að mönnum hafi ekki getað orðið á, að þeir hafi ekki gert mistök og átt að reyna að gera betur. Það er um það sem þetta snýst og við verðum einfaldlega að horfast í augu við þá hluti," sagði Steingrímur og sagði að það væri sér mikið tilfinningamál að flytja þessa ræðu og það væri erfitt.

Steingrímur sagði einnig, að menn segðu að það sé óvíst að miklu hefði verið forðað þótt menn hefðu staðið öðru vísi að málum á síðari hluta ársins 2007 og öndverðu árinu 2008.

„Rannsóknarnefndin gefur í skyn, að veikleikarnir í bankakerfinu hafi verið orðnir slíkir 2006 að kannski hefði verið erfitt að sjá að síðar hefði átt að vera hægt að afstýra falli þeirra. Það er nokkuð til í því að mínu mati," sagði Steingrímur. „En það leysir menn ekki undan skyldunni að reyna og leysir menn ekki undan skyldunni sem snýr að því að reyna að lágmarka skaðann."

Steingrímur bætti við, að hefðu menn af meiri árvekni reynt að horfast í augu við aðstæður allt frá árinu 2005 og líka á árunum 2007 og 2008 hefði verið hægt að draga verulega úr tjóni íslenska þjóðarbúsins.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði Steingrím hvort hann teldi að Seðlabankinn  hefði átt að setja viðskiptabankana á hausinn með því að stöðva frekari lánveitingar á sama tíma og aðrir seðlabankar heims hefðu aukið aðgengi banka að lánsfé vegna lausafjárkreppunnar.

Steingrímur svaraði, að vissulega hefði Seðlabankanum og öðrum verið vandi á höndum.  „Að sjálfsögðu skiljum við þær erfiðu aðstæður sem þarna voru uppi. En menn gátu látið það vera að fara um lönd og álfur og reyna að eyða misskilningi um styrk íslenska bankakerfisins þegar svo var komið," sagði hann.

Steingrímur sagði, að sjálfsögðu hefði verið eðlilegt að Seðlabankinn reyndi innan þeirra marka, sem einhver vitglóra var í, að  styðja við bakið á kerfinu og verða ekki sjálfur þess valdandi að það hryndi. „En hann gat þá að minnsta kosti tekið betri veð og tryggingar fyrir þeirri fyrirgreiðslu og hann líka gert það beint í stað þess að fara þá hjáleið sem farin var með ástarbréfin í gegnum önnur fjármálafyrirtæki," sagði Steingrímur Rannsóknarnefnd Alþingis hefði ítrekað sagt um þá gjörninga að þeir væru óskiljanlegir eða illskiljanlegir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka