Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn svarað áminningarbréfi ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um Icesave-reikningana. Fresturinn rann út 1. ágúst en var framlengdur til 8. september. Aftur veitti ESA frest en nú var það gert með óformlegum hætti.
Í svari Kristrúnar Heimisdóttur, aðstoðarmanns efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Morgunblaðsins, segir að ESA hafi veitt íslenskum stjórnvöldum frest „fram undir miðjan mánuð“ m.a. vegna þess að nýr ráðherra hafi komið að málaflokknum.
Kristrún sagði að stjórnvöld myndu nota tímann til að gera svarið sem best úr garði, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.