Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag, að hann ætlaði að leggja fram breytingartillögu við þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þá að ráðist verði í nýja rannsókn á einkavæðingu bankanna.
„Þá vonandi geta menn í framhaldinu farið að ræða um pólitík og hvernig eigi að bæta ástandið í landinu," sagði Sigmundur Davíð og bætti við, að hann væri að hugsa um að láta fylgja með tillögu um að kannaðir verði styrkir frá sparisjóðunum til stjórnmálamanna.
„Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við ljúkum einhvern tímann þessum endalausu rannsóknum, komumst að niðurstöðu og vitum hvað við ætlum að gera við niðurstöðurnar því það er ekki hægt, nú tveimur árum eftir hrunið, að halda áfram að tala eingöngu um fortíðina og sitja uppi með ríkisstjórn, sem byggir tilveru sína og tilverurétt að eigin mati eingöngu á því hver hún er ekki og hvað hún gerði ekki en ekki á því sem hún er og ætlar að gera," sagði Sigmundur Davíð.
Hann sagði að málflutningur Samfylkingarinnar væri einkennilegur í þessu sambandi. Sá flokkur hefði aldrei átt farsælan dag í ríkisstjórn en leyfði sér samt að tala eingöngu um Framsóknarflokkinn út frá einum atburði: einkavæðingu bankanna.