Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segist taka heilshugar undir þann boðskap sem felist í skýrslu þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að tímabært sé að huga að stöðu Alþingis með það að markmiðið að sjálfstæði þess verði styrkt.
„Í dag er kallað eftir því að slík breyting á stöðu þingsins birtist með sýnilegum hætti í störfum og starfsháttum Alþingis. Veigamikill þáttur í því er að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þingsins þannig að það geti sinnt hlutverki sínu með sóma,“ sagði Ásta við umræður um skýrslu þingnefndarinnar á Alþingi.
Hún segir eðlilegt að framlög til Alþingis á fjárlögum byggist á samkomulagi milli þingflokkanna og fjárlaganefndar þingsins. En séu ekki háð ákvörðunarvaldi ríkisstjórnar hverju sinni.
„Í ljósi þeirra góðu viðbragða sem skýrsla þingmannanefndarinnar hefur hlotið í umræðum hér á Alþingi treysti ég því að alþingismenn veiti þeim tillögum brautargengi sem forsætisnefnd og þingmannanefndin hafa borið fram. Ég heiti á alþingismenn að sameinast um að ljúka þessari umbótavinnu fyrir lok næsta þings,“ sagði Ásta.