Umræðu líklega frestað á morgun

Þingmenn hafa rætt um skýrslu þingmannanefndarinnar í gær og dag.
Þingmenn hafa rætt um skýrslu þingmannanefndarinnar í gær og dag. mbl.is/Árni Sæberg

Umræðu um skýrslu þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, verður að öllum líkindum frestað síðdegis á morgun svo að nefndin geti skoðað málin vegna væntanlegra breytingatillagna segir Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.

Hún segir fyrstu umræðu um tillögur nefndarinnar um ráðherraábyrgð hefjast á föstudagsmorgun. Því næst verði þeim vísað aftur til nefndar fyrir aðra umræðu. Hún segir það þingsins að ákveða til hvaða nefndar tillögunum verði vísað.

„Samkvæmt þingskapalögum fara tillögur aftur til sömu nefndar og flytur þær. Þingmenn og viðkomandi nefnd getur einnig óskað eftir að fá álit annarra nefnda. Það er ákvörðun þingsins,“ segir Ásta.

Ómögulegt sé að segja til um hvenær þeim umræðum ljúki og meta þurfi stöðuna þegar þær hefjist.

Umræða um skýrslu þingmannanefndarinnar hófst í gærmorgun og hefur staðið í allan dag á Alþingi. Enn eru 20 þingmenn á mælendaskrá. Í skýrslu nefndarinnar er þingsályktunartillaga  með ýmsum niðurstöðum, þar á meðal að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Þá eru þar einnig tillögur um ýmsar úrbætur og rannsóknir. Reikna má með, að breytingartillaga komi fram um að sérstök rannsókn fari fram á einkavæðingu bankanna þriggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert