Varað er við stormi á sunnan og suðvesturlandi í dag. Þar sem vindur getur farið upp í 23 metra á sekúndu geta hviður auðveldlega farið í 40 metra á sekúndu, að því er segir í tilkynningu frá forvarnasviði Sjóvá.
Eru ökumenn á farartækjum sem taka á sig vind, s.s. húsbílum, flutningabílum og ekki síst þeir sem aka með létta eftirvagna, s.s. hestakerrur og hjólhýsi, beðnir að vera ekki á ferðinni á þessum svæðum.
Veðurstofa Íslands hefur jafnframt sent frá sér viðvörun. Búist er við stormi á landinu síðdegis í dag.
Veðurstofan gerir ráð fyrir vaxandi norðanátt, víða 15-23 metrar á sekúndu síðdegis. Úrkomulítið sunnan- og vestanland, annars rigning og talsverð úrkoma á Norður- og Norðausturlandi. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast sunnanlands.
Norðan 10-18 metrar á sekúndu á morgun, hvassast austantil.
Rigning norðaustantil, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Heldur kólnandi.