Náttúrufræðistofnun segir, að ekkert hafi orðið vart við flækingsfiðrildi á Íslandi í sumar enda veðurblíða einstök og ekki veður til hrakninga. Það hafi ekki verið fyrr en vika var liðin af september sem fiðrildi af ýmsum tegundum tóku þá að berast til landsins með hlýjum loftstraumum, sum væntanlega langt úr suðri.
Á vefnum kemur fram að kóngasvarmi sé stærst fiðrilda sem hingað berst. Hans verði vart síðsumars og á haustin flest ár en í mismiklum fjölda. Allnokkrir kóngasvarmar hafa sést á sunnanverðu landinu þessa vikuna, frá Garðabæ austur í Hornafjörð, mest fjórir á Kvískerjum í Öræfum.
Aðmírálsfiðrildi berast hingað einnig í mismiklum mæli nær árlega frá því snemma í júní og fram á haust, flest þó á haustin. Nokkur hafa sést undanfarna daga á svipuðum slóðum og kóngasvarmarnir, þ.e. frá höfuðborgarsvæðinu austur í Hornafjörð.
Páfiðrildi sást á flögri í Mosfellsdal. Náttúrufræðistofnun segir, að ekki sé vitað til þess að páfiðrildi geti borist hingað með vindum heldur komi þau með varningi.