Lára talin hæf

Fólk safnaðist saman fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun.
Fólk safnaðist saman fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Lára V. Júlíusdóttir, settur ríkissaksóknari í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem ákærðir eru m.a. fyrir árás á Alþingi, er talin hæf til að sækja málið. Þetta kom fram í úrskurði Péturs Guðgeirssonar, dómara málsins. Kröfu um frávísun málsins frá dómi var því synjað.

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi fjögurra sakborninga, lét hafa eftir sér við fyrirtökuna að úrskurðurinn yrði að öllum líkindum kærður til Hæstaréttar.

Við fyrirtökuna var einnig tekist á um hvenær aðalmeðferð málsins skuli fara fram. Dómari málsins, Pétur Guðgeirsson, lagði til að hún færi fram í lok nóvember en því mótmælti Ragnar þar sem einn skjólstæðinga hans ætti von á barni á sama tíma. Engu að síður er miðað við að aðalmeðferð fari fram mánudaginn 29. nóvember, miðvikudaginn 1. desember og hugsanlega laugardaginn 4. desember. Tók dómari fram, að hægt væri að taka skýrslu af sakborningnum barnshafandi á öðrum tíma.

Eftir þinghaldið sagði Ragnar að einnig ætti eftir að taka fleiri atriði fyrir, þ.e. áður en hægt væri að flytja málið. Hann benti á að gögnum hefði verið haldið frá skjólstæðingum sínum og nefndi í því samhengi skýrslu frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins til ríkissaksóknara. Aðeins hafi verið afhent stutt bréf þar sem komið hafi fram að lögreglan teldi ekki nauðsynlegt að ákæra fyrir brot gegn 100. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. árás á Alþingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert