Mikill verðmunur er á ýsu í fiskbúðum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri samkvæmt verðsamanburði verðlagseftirlits ASÍ. Lægsta verð á roðflettri og beinlausri ýsu var í Fiskbúðinni Hafrúnu í Skipholti og Litlu fiskbúðinni Miðvangi í Hafnarfirði eða 1.290 kr/kg. Hæsta verðið var hins vegar hjá Fiskikónginum á Sogavegi 1.790 kr/kg. Munurinn er 38,8%. Verðsamanburðurinn var gerður á mánudag.
Skoðaðar voru 29 tegundir
af fiskmeti. Lægsta verðið var oftast að finna í Litlu fiskbúðinni Miðvangi í 13
tilvikum af 29. Fjarðarkaup var með lægsta verðið í 7 tilvikum af 29 en verslanirnar
eru báðar staðsettar í Hafnarfirði. Hæsta verðið var oftast í Kjöt og fisk
Bryggjuhúsinu Höfðabakka eða í 7 tilvikum af 29. Almennt var mikill verðmunur á
milli verslana. Í flestum tilvikum var
munur á hæsta og lægsta verði um eða yfir 50%.
75,5% dýrara að kaupa fiskibollur á Suðurlandsbraut en í Nethyl
Fiskibollur voru ódýrastar í Gallerý fiskur í Nethyl eða 849 kr/kg en dýrastar í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut 1.490 kr/kg. Verðmunurinn er 75,5%.
Verðmunur á steinbíti 155%
Munur á lægsta og hæsta verði var frá 35% upp í 155%. Mestur verðmunur í könnuninni var á roðflettum steinbítsflökum sem voru dýrust á 2.498 kr./kg í Nóatúni en ódýrust á 980 kr./kg í Fjarðarkaup en það gera 1.518 kr./kg verðmun eða 155%.
Minnstur verðmunur var á eldislaxi í sneiðum, sem var ódýrastur á 1.258 kr./kg í Fjarðarkaup og dýrastur á 1.698 kr./kg í Melabúðinni. Munurinn er 35% eða 440 kr./kg.
Mesta úrvalið í verslun Hafberg í Gnoðarvogi
Mikill munur var á vöruúrvali í þeim verslunum sem farið var í. Flestar vörurnar í könnunni voru fáanlegar í Hafberg í Gnoðarvogi en þar fengust allar 29 tegundirnar. Fiskbúðin Trönuhrauni átti 28 tegundir og Heimur Hafsins á Akureyri var með 27 tegundir
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Fylgifiskar Suðurlandsbraut, Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Hafberg Gnoðavogi, Fiskikóngurinn Sogavegi, Fiskbúðinni Háaleitisbraut, Fiskbúðin Hafrún Skipholti, Melabúðinni Hagamel, Fiskbúðinni Freyjugötu, Fjarðarkaup Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Litlu fiskbúðinni Hafnarfirði, Nóatúni í Nóatúni, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fiski Nethyl, Kjöt og fiskur Bryggjuhúsinu Höfðabakka, Fiskbúðin Hófgerði, Fiskbúðin Mosfellsbæ, Til sjávar og sveita Ögurhvarfi, Samkaup Úrval Akureyri, Heimur hafsins Akureyri og Hagkaup Akureyri.