Mikill verðmunur á ýsu

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Mikill verðmunur er á ýsu í fiskbúðum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri samkvæmt verðsamanburði verðlagseftirlits ASÍ. Lægsta verð á roðflettri og beinlausri ýsu var í Fiskbúðinni Hafrúnu í Skipholti og Litlu fiskbúðinni Miðvangi í Hafnarfirði eða 1.290 kr/kg.  Hæsta verðið var hins vegar hjá Fiskikónginum á Sogavegi 1.790 kr/kg.  Munurinn er 38,8%. Verðsamanburðurinn var gerður á mánudag.

Skoðaðar voru 29 tegundir af fiskmeti. Lægsta verðið var oftast að finna í Litlu fiskbúðinni Miðvangi í 13 tilvikum af 29. Fjarðarkaup var með lægsta verðið í 7 tilvikum af 29 en verslanirnar eru báðar staðsettar í Hafnarfirði. Hæsta verðið var oftast í Kjöt og fisk Bryggjuhúsinu Höfðabakka eða í 7 tilvikum af 29. Almennt var mikill verðmunur á milli verslana.  Í flestum tilvikum var munur á hæsta og lægsta verði um eða yfir 50%.

75,5% dýrara að kaupa fiskibollur á Suðurlandsbraut en í Nethyl

Fiskibollur voru ódýrastar í Gallerý fiskur í Nethyl eða 849 kr/kg en dýrastar í Fylgifiskum á Suðurlandsbraut 1.490 kr/kg.  Verðmunurinn er 75,5%.

Verðmunur á steinbíti 155%

Munur á lægsta og hæsta verði var frá 35% upp í 155%.  Mestur verðmunur í könnuninni var á roðflettum steinbítsflökum sem voru dýrust á 2.498 kr./kg í Nóatúni en ódýrust á 980 kr./kg í Fjarðarkaup en það gera 1.518 kr./kg verðmun eða 155%.

Minnstur verðmunur var á eldislaxi í sneiðum, sem var ódýrastur á 1.258 kr./kg í Fjarðarkaup og dýrastur á 1.698 kr./kg í Melabúðinni.  Munurinn er 35% eða 440 kr./kg.

 Mesta úrvalið í verslun Hafberg í Gnoðarvogi

Mikill munur var á vöruúrvali í þeim verslunum sem farið var í. Flestar vörurnar í könnunni voru fáanlegar í Hafberg í Gnoðarvogi en þar fengust allar 29 tegundirnar. Fiskbúðin Trönuhrauni  átti 28 tegundir og Heimur Hafsins á Akureyri var með 27 tegundir

 Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum:  Fylgifiskar Suðurlandsbraut, Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Hafberg Gnoðavogi, Fiskikóngurinn Sogavegi, Fiskbúðinni Háaleitisbraut, Fiskbúðin Hafrún Skipholti, Melabúðinni Hagamel, Fiskbúðinni Freyjugötu, Fjarðarkaup Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Litlu fiskbúðinni Hafnarfirði, Nóatúni í Nóatúni, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fiski Nethyl, Kjöt og fiskur Bryggjuhúsinu Höfðabakka, Fiskbúðin Hófgerði, Fiskbúðin Mosfellsbæ, Til sjávar og sveita Ögurhvarfi, Samkaup Úrval Akureyri, Heimur hafsins Akureyri og Hagkaup Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert