Fréttaskýring: Óvíst hvort málið fer í nefnd

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, ræðir við aðra þingmenn á Alþingi.
Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, ræðir við aðra þingmenn á Alþingi. mbl.is/Ómar

Ekki er búist við að þingsályktunartillögur þingmannanefndarinnar um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007-2009 verði á dagskrá Alþingis fyrr en á föstudagmorgun, 17. september.

Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, mun mæla fyrir áliti meirihluta nefndarinnar, en meirihlutann skipa ásamt Atla þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Þau leggja til að höfðuð verði sakamál fyrir landsdómi gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum, þeim Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni.

Hin tillagan til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum er frá fulltrúum Samfylkingarinnar í nefndinni, þeim Magnúsi Orra Schram og Oddnýju G. Harðardóttur, en þau leggja til að þrír ofangreindra ráðherra verði ákærðir af Alþingi, þ.e. allir ofangreindir ráðherrar nema Björgvin G. Sigurðsson.

Sjálfstæðismenn meðmæltir

Ekki hefur verið ákveðið hvort þingsályktunartillögunum verður vísað til allsherjarnefndar, en um það mun vera ágreiningur meðal þingmanna. Þannig munu ákveðnir þingmenn Samfylkingarinnar vilja að málið fari til allsherjarnefndar en aðrir vera því andvígir og þingmenn VG munu einnig vera því andvígir. Búast má við því að tillaga komi fram í þinginu um að tillögurnar fari til allsherjarnefndar og þá verður atkvæðagreiðsla um þá tillögu í þinginu. Búist er við því að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni styðja slíka tillögu, einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins og einhverjir þingmenn Samfylkingar.

Í gær var ekki vitað hvenær þinginu lýkur, en í dag átti að vera síðasti þingdagur septemberþingsins. Ljóst var talið að þinghald myndi a.m.k. dragast eitthvað fram eftir næstu viku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert