Óformlegum þingflokksfundi Samfylkingarinnar sem átti að fara fram í kvöld hefur verið frestað. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, átti að mæta á fundinn til að gera grein fyrir sínum málum. Fundurinn mun fara fram annað kvöld.
Skúli Helgason, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir að menn hafi viljað fá lengri tíma til að undirbúa sig fyrir fundinn.
Hann segir að auk Ingibjargar verði þeim Björgvini G. Sigurðssyni, Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen einnig boðið að koma á fundinn til að gera grein fyrir sínum málum. Skúli segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort þeir muni þekkjast boðið.
Þetta sé liður í þeirri faglegu umfjöllun sem þingflokkur Samfylkingarinnar vilji bjóða upp á. Farið verði í gegnum þau gögn sem þingmannanefndin, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, vann og rætt við sérfræðinga.
„Það eru ákveðnar upplýsingar sem fólk vill nálgast og það vill hafa meiri tíma til að undirbúa sig. Þess vegna var þessum fundi frestað.“