Fyrirtaka fer fram í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem m.a. eru ákærðir fyrir árás á Alþingi. Um er að ræða uppkvaðningu úrskurðar en í síðustu fyrirtöku var tekist á um hæfi Láru V. Júlíusdóttur, setts ríkissaksóknara í málinu. Búast má við að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar, hver svo sem niðurstaðan verður.
Fyrirtakan hefst kl. 8.30 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í undanfarin tvö skipti sem málið var tekið fyrir hefur þinghald gengið vel fyrir sig en aðeins takmörkuðum fjölda fólks er hleypt inn í dómhúsið. Reikna má með að fyrirkomulagið verði eins í dag. Lögregla verður þó án efa nærri og tilbúin að grípa til aðgerða gefist til þess ástæða.
Þegar hefur verið tekist á um hæfi dómarans, Péturs Guðgeirssonar, í málinu. Sjálfur taldi hann sig hæfan til að dæma í málinu og var þeirri niðurstöðu skotið í Hæstaréttar. Rétturinn staðfesti úrskurð Péturs.
Við málflutning vegna kröfu Ragnars Aðalsteinssonar, verjanda fjögurra sakborninga, um að málinu beri að vísa frá vegna vanhæfis Láru sagði verjandinn að rætur málsins væru pólitískar, það ætti að hafa þann boðskap að almenningur skyldi fara hljóðlega um götur borgar og bæja og viðra ekki opinberar skoðanir á skjön við skoðanir valdamanna. Frumkvæðið hefði komið frá Alþingi og þess krafist að sakborningar yrðu í það minnsta dæmdir í eins árs fangelsi. Settur ríkissaksóknari hefði orðið við þeirri kröfu Alþingis að ákæra á grundvelli 100. gr. almennra hegningarlaga.
Tengsl setts ríkissaksóknara við Alþingi skipta sköpum, að mati Ragnars. Hún var kosin af Alþingi til setu í bankaráði Seðlabanka Íslands og gegnir þar formennsku. Þar sé um valdamikið starf að ræða sem skiptir pólitískt miklu máli. „Settur ríkissaksóknari er trúnaðarmaður Alþingis í bankaráði Seðlabanka Íslands. Og starfar að sjálfsögðu í umboði Alþingis,“ sagði Ragnar og bætti við að skjólstæðingar sínir gætu ætlað sem svo að Lára teldi starf sitt í hættu ákærði hún ekki samkvæmt vilja Alþingis.
Lára vísaði vanhæfi sínu og bug og benti á að starf hennar í bankaráði væri ekki fallið til þess að hægt væri að draga óhlutdrægni hennar í efa. Bankaráðið hafi ekki neinna hagsmuna að gæta og ekki sé um náið vinnusamband að ræða milli Alþingis og bankaráðsins. Hún sagði einu tengsl sín við Alþingi kosningu þingsins. Hins vegar væri fjöldi fólks kosinn af Alþingi í nefndir og ráð án þess að það sköpuðust einhvers konar tengsl við þingið.
Hvað varðaði skipun hennar í embætti setts saksóknara hefði Alþingi hvergi komið þar nærri, heldur hefði það verið í höndum dómsmálaráðherra.