Kvenréttindafélag Íslands varar við svokallaðri „kynfæragötun“ sem hefur færst í vöxt meðal ungra kvenna að undanförnu. Ætla má að klámvæðing samfélagsins sé rót þessarar auknu eftirspurnar, samkvæmt ályktun sem félagið hefur sent á fjölmiðla.
„Klámvæðingin hefur síast inn í vitund kvenna jafnt sem karla og kemur t.d. glögglega í ljós í poppmenningunni og í auglýsingum. Klámvæðingin stuðlar að „normaliseringu“ kláms og afleiðingum þess, s.s. kaupum á vændi, mansali, o.s.frv. Kynfæragötun getur auk þess haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir konur.
Kvenréttindafélag Íslands skorar á heilbrigðisyfirvöld að vera vel á verði, bæði hvað varðar afleiðingar þessara aðgerða svo og leyfisveitingar til handa þeim er framkvæma þær. Þykir félaginu ástæða til þess að hvetja yfirvöld til að gera úttekt á umfangi og eðli þessara aðgerða," segir í ályktun sem félagið hefur sent frá sér.