Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Vesturlands, sem sýknaði tvo karlmenn og eina konu af ákæru fyrir ólögmæta sauðfjárslátrun. Taldi Hæstiréttur, eins og héraðsdómur, að ekki væri viðhlýtandi lagastoð fyrir því að háttsemi mannanna væri refsiverð.
Það var Heilbrigðiseftirlit Vesturlands sem gerði lögreglunni aðvart sl. haust um sauðfjárslátrun færi fram í gámi. Á vettvangi hitti lögregla fyrir fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins og fólkið, sem síðar var ákært. Í gáminum var búið að hengja upp 19 lambskrokka.
Fólkið kannaðist við að hafa staðið að slátruninni en gámurinn og húsnæðið var í eigu fyrirtækis, sem aftur er í eigu mannanna tveggja. Fram kom, fram að sama dag um morguninn hefðu lömbin verið sótt í fjárhús og flutt í lokaðri sendibifreið að gáminum. Lömbunum hefði síðan verið slátrað í bifreiðinni með rotbyssu og frágangi verið lokið um hádegisbilið þegar fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins bar að.
Sýslumaðurinn í Stykkishólmi ákvað í október í fyrra að fella málið niður þar sem rannsókn málsins hefði ekki leitt í ljós sakargiftir sem líklegar væru til sakfellis. Þeirri ákvörðun skaut Heilbrigðiseftirlit Vesturlands til ríkissaksóknara og felldi hann ákvörðunina úr gildi í janúar. Því var málið höfðað.
Fólkið sagði, að kjötið hafi eingöngu verið ætlað til eigin neyslu. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu, að ákvæði laga um að slátra beri í sláturhúsum nái ekki til slátrunar þegar afurðum er ekki dreift heldur þær aðeins nýttar til einkaneyslu.