„Þetta er að mínu viti sú leið sem mesta sáttin getur orðið um í samfélaginu. Niðurstaðan er jákvæð fyrir fjármálakerfið og landsmenn alla,“ segir Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármögnunarfyrirtækisins Avant um niðurstöðu Hæstaréttar í ágreiningi um vexti erlendra bílalána.
Eignir Avant minnkuðu um 10 milljarða kr. þegar Hæstiréttur dæmdi gengisbundin bílalán ólögleg. Avant var í eigu Askar Capital og þegar móðurfélagið varð gjaldþrota var skipuð bráðabirgðastjórn yfir Avant. Hún hefur unnið að undirbúningi nauðasamninga. Magnús telur að niðurstaða Hæstaréttar í vaxtamálinu auki líkur á að það ferli gangi eftir.
Magnús segir að nú verði unnið hratt og vel úr málum en fyrirtækið hefur ekki sent út greiðsluseðla vegna gengisbundinna bílalána frá því í júní. Reynt verður að senda út greiðsluseðla í byrjun október, á þeim grundvelli sem dómurinn skapar, eins og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa mælst til. Magnús segir að fólk eigi ekki von á margra mánaða uppsöfnuðum kröfum heldur eðlilegri mánaðargreiðslu.