Forsendur til að taka kröftuglega á skuldamálum

Landsbankinn segir, að með dómi Hæstaréttar og viðbrögðum efnahags- og viðskiptaráðherra við honum séu stigin stór skref til að eyða þeirri óvissu sem uppi hafi verið. Nú séu allar forsendur til að taka kröftuglega á skuldamálum bæði fyrirtækja og einstaklinga og muni bankinn leggja sitt af mörkum í þá veru.

Landsbankinn hefur þegar sett á stofn ráðgjafasetur fyrir skuldsett heimili og aukin þjónusta fyrir  þau verður kynnt á næstunni.  Þá stendur til að setja á stofn sérstakt svið innan Landsbankans sem mun eingöngu sinna málum er lúta að endurskipulagningu skulda fyrirtækja. Landsbankinn mun einnig á næstu dögum kynna breytingar á eldri úrræðum fyrir skuldsett fyrirtæki sem munu einfalda og hraða allri meðferð þeirra mála. 

Landsbankinn hefur ákveðið að allir einstaklingar  í hópi viðskiptavina bankans sem eru með erlend fasteignalán geti óskað eftir endurútreikningi þeirra. Þetta verður þó ekki í boði fyrr en endurútreikningi gengistryggðra lána er lokið.

Endurútreikningur lána mun taka töluverðan tíma og ekki er ljóst hvenær honum lýkur, að sögn bankans, þótt honum verði hraðað.  Á meðan býðst viðskiptavinum að greiða 5000 krónur af hverri milljón upprunalegs höfuðstóls fasteignalána. Þá geta þeir greitt af lánunum miðað við skilmála þeirra kjósi þeir það frekar.

Landsbankinn mun reikna lánin miðað við verðtryggða og óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Viðskiptavinir geta svo valið þá leið sem þeim er hagfelldari. Kjósi þeir að bera endurútreikning bankans undir þriðja aðila er það að sjálfsögðu heimilt. 

Þegar endurreikningi er lokið mun Landsbankinn bjóða viðskiptavinum nýjan samning um eftirstöðvar  láns þeirra. Kjósi  viðskiptavinir að hafa lán sín í erlendri mynt verður þeim það heimilt.

Bankinn segir, að dómur Hæstaréttar nú leiði ekki til þess að hluthafar bankans þurfi að leggja Landsbankanum til nýtt eigið fé enda séu áhrif af þessum dómi óveruleg.  Á hinn bóginn hafi  dómar Hæstaréttar í þessum málum nokkur áhrif á SP- Fjármögnun hf., dótturfélag bankans. Landsbankinn muni hins vegar styðja SP- Fjármögnun hf. þannig að staða viðskiptavina fyrirtækisins verði trygg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert