Fyrir öllu að fá niðurstöðu

Framundan er mikil vinna við að endurreikna erlend bílalán.
Framundan er mikil vinna við að endurreikna erlend bílalán. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er komin niðurstaða og það er fyrir öllu,“ segir Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, um dóm Hæstaréttar í ágreiningi um vexti af erlendum bílalánum.

Halldór segir að framundan sé mikil vinna við úrvinnslu mála. „En það er þó hægt að vinna út frá einhverju og löngu kominn tími á það,“ segir hann.

Forstjóri Lýsingar segir að enn eigi eftir að skera úr um ýmis álitamál, til dæmis þegar eigendaskipti hafa orðið á bílum. Vonast hann til að frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra taki á sem flestum vafamálum.

Reiknað er með að hægt verði að endurreikna meginhluta lána viðskiptavina Lýsingar og gera viðkomandi grein fyrir stöðunni í byrjun næsta mánaðar. Halldór tekur fram að ekki sé víst að hægt verði að ganga frá öllum málum á þeim tíma.

„Þetta er þungt högg en viðráðanlegt,“ segir Halldór um áhrif dómsmálanna um lögmæti erlendra bílalána á rekstur og stöðu fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert