Mun mildara högg

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME.
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME. mbl.is/Eggert

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að höggið sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir, í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán, sé mun mildara en  svörtustu spár og sé um 140 milljarðar króna.

Hann segir að Fjármálaeftirlitið muni nú skoða eiginfjárkröfur, sem stofnunin gerir til fjármálafyrirtækja. Tekið verði með í reikninginn að ákveðinni óvissu hafi verið eytt. Þá komi til álita að skoða lægri kröfur. Gunnar segir hins vegar að FME sé ekki búið að taka slíka ákvörðun. „Að minnsta kosti er búið að eyða heilmikilli óvissu og tryggja stöðugleika í kerfinu,“ segir hann og bætir við að hann fagni öllum aðgerðum sem eyði slíkri óvissu.

„Við höfðum af þessu áhyggjur, af endurreikningi á grunni erlendra samningsvaxta. Og okkar þáttur í þessu máli hefur verið að safna og greina upplýsingar. Við höfum sett síðan í framhaldinu upp ákveðnar sviðsmyndir, misdökkar. Það hefur komið fram að sú dekksta af þeim öllum, miðað við endurreikning allra gengistryggðra lána á grunni erlendra samningsvaxta, sýndi að höggið yrði um 350 milljarðar, sem er gríðarlega mikið högg fyrir fjármálakerfið,“ segir Gunnar og heldur áfram:

„Og við höfum haft miklar áhyggjur af því. Við höfum líka séð þessa sviðsmynd þar sem öll þessi lán eru endurreiknuð á grunni óverðtryggðra vaxta Seðlabankans. Þá er höggið mun mildara, eða um 50 milljarðar eða svo. Hvernig sem þetta verður endurreiknað þá hefur þetta áhrif á fjármálakerfið og  neikvæð áhrif á eiginfjárhlutföll fjármálafyrirtækja.“

Verði af þessari lagasetningu, eins og henni er lýst, þá verður höggið 50 milljarðar króna á kerfið, segir Gunnar en samkvæmt frumvarpinu þá er gert ráð fyrir breytingum á kjörum gengislána einstaklinga en ekki fyrirtækja. Ef gengistryggð lán fyrirtækja eru tekin með þá yrði höggið hins vegar 140 milljarðar króna á fjármálafyrirtækin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka